Rússar íhuga nú að setja bann við innflutningi fiskafurða frá Íslandi, segir frétt frá rússnesku fréttastofunni Tass. Formaður heilbrigðiseftirlits Rússlands, Sergei Dankvert, gaf út þá yfirlýsingu á fimmtudag.

Þetta mögulega bann stafar af staðfestum tilfellum þar sem norskur fiskur hefur fundist í fisksendingum sem skráðar voru frá Íslandi. Bann var lagt við innflutningi á norskum fiski til Rússlands í byrjun árs vegna of mikils magns blýs og kadmíums.

Dankvert segir að Rússar hafi beðið um staðfestingu heilbrigðisvottorða 102 sendinga frá Íslandi, en að íslensk yfirvöld hafi aðeins getað staðfest áreiðanleika 13 þeirra.

?Það þýðir að næstum 90% heilbrigðisvottorða séu fölsuð. Við verðum því að grípa til einhverra aðgerða," sagði Dankvert.

Dankvert sagði þó að Rússar myndu ekki setja á slíkt bann ef samkomulag næðist við Ísland um að fiskur færi aðeins í gegnum opinberar tollstöðvar.