Rússnesk stjórnvöld létu jafna við jörðu haug af osti og öðrum matvælum sem smyglað hafði verið inn til landsins í óþökk stjórnvalda. BBC News greinir frá þessu.

Innflutningur matvælanna braut gegn viðskiptabanni sem Rússar hafa lagt á Bandaríkin og flest ríki Evrópu. Meðal annarra matvæla sem voru eyðliögð af Rússum var gríðarlegt magn af beikoni og ávöxtum.

Eyðileggingin hefur vakið reiði meðal margra innan Rússlands, m.a. samtaka sem berjast gegn fátækt í landinu. Telja þau að maturinn hefði frekar átt að vera gefinn fátækum.

Það tók einn rússneskan gufuvaltara klukkustund að kremja níu tonn af vestrænum osti. Önnur matvæli voru brennd og var beikonið þar á meðal. Þá var valtað yfir mikið magn af ferskjum og tómötum.