Rússneski ríkisolíurisinn Rosneft hefur keypt keppinautinn TNK-BP fyrir samtals 54,8 milljarða dala, jafnvirði tæpra 6.800 milljarða íslenskra króna. Þetta jafngildir fjórfaldri landsframleiðslu Íslands. TNK-BP er þriðja umsvifamesta olíufyrirtæki Rússlands og eitt af tíu helstu olíufyrirtækjum heims. Þetta eru einhver umsvifamestu olíuviðskipti sögunnar.

TNK-BP var í jafnri helmingseigu olíufyrirtækisins BP og rússneskra auðmanna sem komust í álnir með kaupum á rússneskum ríkisfyrirtækjum við fall Ráðstjórnarríkjanna.

Erlendir fjölmiðlar, þar á meðal breska dagblaðið Telegraph , segir söluna hagstæða fyrir BP. Félagið fær 17,1 milljarð dala í reiðufé fyrir hlut sinn og er það undir þrýstingi frá hluthöfum að koma megninu af fjármunum til þeirra. BP fær sömuleiðis tvo menn í stjórn Rosneft.

TNK-BP var til árið 2003 þegar BP og auðmennirnir, gjarnan kallaðir olígarkar, færðu eignahluti sína í olíufélögum í Rússlandi og Úkraínu inn í eitth félag.