Rússneski Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti úr 12,5% í 11,5% í ljósi þess að verðbólga þar í landi fer minnkandi. Verðbólga dróst saman í 15,8% í maí eftir að hafa verið 16,9% í mars.

Seðlabankinn lýsti þó einnig yfir áhyggjum sínum af slaka í hagkerfinu. Spáir hann 3,2 prósent samdrætti í vergri landsframleiðslu í ár.

Rússneska rúblan tók afar litlum breytingum eftir tilkynningu Seðlabankans í ljósi þess að flestir sérfræðingar höfðu spáð þessari lækkun stýrivaxta. Vextirnir voru keyrðir upp í 17 prósent í desember síðastliðnum til að reyna að sporna við áhlaupi á rúbluna.

Rússneskur efnahagur hefur mátt finna verulega fyrir ýmsum refsiaðgerðum af hálfu Evrópusambandsins og Bandaríkjanna vegna ófriðarins í Úkraínu. Þá hefur lækkandi olíuverð einnig komið sér illa fyrir Rússa.