Rússnesk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau áformi að bæta sjö löndum á lista yfir þau lönd þaðan sem bannað er að flytja inn matvæli. Ekki liggur fyrir hvaða sjö lönd það eru sem Rússar hyggjast bæta á listann eða hvort Ísland verði á meðal þeirra. Varaforsætisráðherra Rússlands, Arkady Dvorkovich, býst við því að ákvörðunin verði tilkynnt fljótlega.

Úkraína, Svartfjallaland, Albanía, Liechtenstein, Georgía, Noregur og Ísland hafa tekið þátt í þvingunaraðgerðum Vesturveldanna gagnvart Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar. Noregur er eina landið sem hingað til hefur fengið að finna fyrir innflutningsbanni af hálfu rússneskra yfirvalda.

Rússar settu innflutningsbann á ýmis matvæli frá Vesturlöndum í ágúst á síðasta ári. Bannið átti upphaflega að vera til eins árs en var framlengt í júní og stendur nú til 5. ágúst 2016. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá gæti innflutningsbann af hálfu rússneskra stjórnvalda reynst dýrkeypt íslenskum fyrirtækjum, sér í lagi í sjávarútvegi.

Kreppan í Rússlandi dýpkar enn

Landsframleiðsla Rússlands dróst saman um 4,6% á öðrum ársfjórðungi. Miðgildi hagspáa hljóðaði upp á 4,5% samdrátt og er þetta því ívið meiri samdráttur en búist hafði verið við að jafnaði. Þetta er mesti samdráttur í landsframleiðslu Rússlands frá árinu 2009.

Rússneska rúblan féll harkalega á senni hluta síðasta árs í kjölfar lækkunar olíuverðs og efnahagsþvingana af hálfu Vesturlanda. Rúblan styrktist framan af vori, en hefur síðan veikst aftur . Styrking rúblunnar í vor er nú nánast að öllu leyti gengin til baka.

Bloomberg hefur eftir greinanda hjá fyrirtækinu Rabobank að helstu tíðindin af hagkerfi Rússlands snúi ekki að miklum samdrætti á öðrum ársfjórðungi, heldur svartara útliti fyrir hagvöxt á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Veik eftirspurn neytenda á innfluttum vörum er nú einnig farinn að hrjá rússneska iðnaðarframleiðslu og innlenda fjárfestingu.