Íslensku flugfélögunum, Icelandair og Wow hefur ekki tekist að fá heimild rússneskra flugmálayfirvalda til beins flugs yfir lofthelgi landsins til áfangastaða í suðaustur Asíu.

Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá í júlí í fyrra hafa flugfélögin lengi skoðað flug til Asíu en Indland varð þar fyrst fyrir valinu . Jafnframt hefur verið fjallað ítarlega um , að bæði flugfélögin hafa lýst yfir vilja til að fljúga til áfangastaða í Kína, Japan og Suður Kóreu, og hófust samningaviðræður við Rússa sumarið 2017.

Rússnesk stjórnvöld hafa hins vegar neitað beiðni flugfélaganna um að fá að fljúga yfir lofthelgina án greiðslu, heldur hafa þau krafist þess að fá 100 Bandaríkjadala greiðslu fyrir hvern farþega sem flogið er með að því er Aviator fréttasíðan greinir frá.

Segir þar jafnframt að íslensku fyrirtækin segi óbilgirni Rússa vera vegna þátttöku Íslands í refsiaðgerðum ESB gegn Rússlandi vegna innlimunar Krímskaga og stuðningi við uppreisnarhópa í austurhluta Úkraínu.

Hefur ekki áhrif á Indlandsflug

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í vikunni að Wow air væri byrjað að selja ferðir til Indlands, en ferðir þangað og til áfangastaða eins og Singapúr og Bangkok í Tælandi liggja ekki um rússneska lofthelgi. Segir Aviator að til greina komi hjá íslensku flugfélögunum að beina flugi til áfangastaðanna í suðaustur Asíu um Indland.

Hvorki Rússland né Kína hafa skrifað undir samning alþjóðaflugmálasamtakanna frá árinu 1944, svo ólíkt flestum öðrum löndum, hafa þau algert vald yfir því hver flýgur yfir lofthelgi þeirra og hvað þeir rukka fyrir það. Norwegian flugfélagið hefur einnig rekist á harðar kröfur Rússneskra yfirvalda en félagið flýgur til áfangastaða í suðaustur Asíu sem ekki kalla á flug um lofthelgi ríkjanna.