Í meira en tvo áratugi hafa orrustuþotur smíðaðar í Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra í Evrópu verið markaðsráðandi á sínum mörkuðum.

Nú eyða hins vegar bæði Kína og Rússland gríðarlegu fé í ný vopn sem gæti komið af stað nýju vopnakapphlaupi.

Tæknigeta Rússa og Kínverja að jafnast á við getu Bandaríkjamanna

Á næstu árum er búist við því að ný vopn og búnaður, bæði flugvélar og loftvarnarbúnaður verði tilbúin frá rússneskum og kínverskum framleiðendum. Gerist þetta á sama tíma og Rússland beitir sér í auknum mæli í miðausturlöndum og Kína stýrir stöðu sína á suður Kínahafi.

„Mikilvægasta ógnin sem flugher Bandaríkjanna stendur frammi fyrir er ris samkeppnisaðila með háþróaða tæknigetu sem jafnast á við okkar eigin getu, “ segir hershöfðinginn David Goldfein hjá flughernum í júní við þingmenn.

Stærsti hluti flugflotans gamall

Tveimur mánuðum seinna kom fram á sjónarsviðið ný herþota flughersins, F-35 Joint Strike Fighter, en vélin er sérstaklega byggð með takmarkaðar loftárásir líkar þeim sem vestrænir aðilar hafa verið að sinna síðan Nato hóf árásir sínar í Bosníu í huga.

F-22 vélin er jafnframt tiltölulega ný, en hún kom fyrst á sjónarsviðið árið 2005. Er hún hönnuð til að skjóta niður óvinaflugvélar á sama tíma og hún á að fljúga á tvöföldum hljóðhraða. Jafnframt hefur hún að undanförnu í auknum mæli verið notuð til loftárása.

Hins vegar er meira en þrír fjórðu hlutar bandarískra orrustuflugvéla frá því á áttunda áratug síðustu aldar, flugherinn hefur notað F-15 vélar sínar síðan 1075, F-16 vélarnar hafa verið notaðar síðan 1979 og F/A-18 vélar bandaríska sjóhersins komu fyrst til notkunar 1978.

Þessar eldri vélar eru helstu vélarnar í flugflota margra asískra og evrópsrka bandamanna Bandaríkjanna.

Huliðsvél frá Rússlandi

Rússar hyggjast setja á markað fyrstu huliðsvél sína, T-50, árið 2018, en hún á að geta numið óvinaflugvélar úr langri fjarlægð, ásamt því að forðast radarmælingar sjálf.

Kínverjar hafa í gegnum árin fyrst og fremst treyst á rússneska hönnun, en nú er flugher landsins „ört að minnka tæknibilið gagnvart vestrænum herflugvélum,“ segir í skýrslu Pentagon um stöðu kínverska hersins. Kínverska J-20 vélin sem minnir um margt á F-22 vélina hóf að fljúga árið 2011, en ári seinna hófst síðan tilraunaflug með FC-31 sem líkist bandarísku F-35 vélinni.

Enn sem komið er njóta bandarískar vélar tæknilegra yfirburða, ekki síst í vélum sem geta komist hjá radarmælingum. Hins vegar eru það ekki einungis flugvélar sem valda Bandarískum hermálayfirvöldum áhyggjum heldur er loftvarnarbúnaður Kína og Rússlands sífellt að verða sífellt betri.