Rússneski herinn gerði tilraunir í gær með nýja tegund af langdrægri eldflaug sem er hönnuð til þess að komast í gegnum gagneldflaugakerfi.

Um er að ræða Topol RS-12M eldflaugar en Interfax-fréttastofan hefur eftir Alexander Vovk, talsmanni rússneska hersins, að þær eru ekki jafn sýnilegar og aðrar langdrægar flaugar og erfiðara er að reikna út feril þeirra eftir að búið er að skjóta þeim á loft.

Stjórnmálaskýrendur telja einsýnt að þróun eldflauganna haldist í hendur við uppsetningu eldflaugavarnakerfis Bandaríkjanna í Evrópu en stjórnvöld í Moskvu óttast að því sé beint gegn rússneskum kjarnorkuflaugum.

Bandarísk stjórnvöld hafa hinsvegar ítrekað að eldflaugavarnarkerfinu sé ætlað að granda flaugum frá útlagaríkjum á borð við Íran og Norður-Kóreu.