Rússnesk stjórnvöld eru reiðubúin að hefna sig á þvingunaraðgerðum Bandaríkjamanna og reka úr landi þrjátíu sendierindreka úr landi. Þetta er haft eftir rússneskum embættismönnum í fjölmiðlum þarlendis. Fjallað er um málið í frétt BBC.

Í desember rak stjórn Obama 35 rússenska sendierindreka úr landi, vegna meintra afskipta þeirra af bandarísku forsetakosningunum. Pútín sagði í kjölfarið að hann vildi ekki spila sama leik , en nú virðist hljóðið vera annað í rússneskum embættismönnum.

Auk þess að reka sendierindrekana úr landi settu Bandaríkjamenn viðskiptaþvinganir á Rússa, vegna afskiptanna. Í rússneska blaðinu Izvestia kemur fram að Rússlandsforseti hafi rætt við Donald J. Trump, forseta Bandaríkjanna, um viðskiptaþvinganir Obama stjórnarinnar, í Hamburg á fundi G20 ríkjanna.