Ríkisstjórn Rússlands hefur ákveðið að lána Íslandi 500 milljónir dala, jafnvirði um 65 milljarða króna. Þetta kemur fram í BarentsObserver.com, sem segir Dmitry Pankin, aðstoðarfjármálaráðherra, hafa sagt blaðinu Vedomosti frá þessu í gær.

Í fréttinni segir að ekki liggi fyrir hvaða skilyrði fylgi lánveitingunni og haft er eftir talsmanni ríkisstjórnar Íslands að samningaviðræður standi yfir.

Fram kemur að ríkisstjórn Rússlands glími sjálf við efnahagserfiðleika og að efnahagstengslin við Ísland séu mjög takmörkuð. Þá kemur fram að vangaveltur hafi verið um mögulegt nýtt hlutverk Rússlands á eyjunni, eins og það er orðað. Forseti landsins hafi seint á síðasta ári í matarboði með erlendum sendimönnum hneykslað þá með því að segja að Rússum yrði ef til vill boðinn aðgangur að herstöðinni í Keflavík og að Ísland þarfnaðist nýrra vina.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur samþykkt að lána Íslandi 2,1 milljarð dala og Norðurlöndin hafa samþykkt 1,8 milljarða evra lán til Íslands. Þá eru viðræður í gangi um lánveitingu frá Póllandi.