Rússneski fluggeirinn hyggst hætta viðskiptum við flugvélaframleiðendurna Boeing og Airbus og nota innlend aðföng til að framleiða um þúsund þotur fyrir árið 2030, að sögn ríkisreknu fyrirtækjasamsteypunnar Rostec. Reuters greinir frá.

Rostec samstæðan, sem er stýrð af Sergei Chemezov, nánum bandamanni Vladímír Pútín Rússlandsforseta, inniheldur eina rússneska framleiðanda farþegaflugvéla. Chemezov segist líta á núverandi aðstæður sem tækifæri til að byggja upp sterkan og sjálfbjarga flugiðnað í Rússlandi.

Um 95% af farþegaflutningum í Rússlandi má rekja til Boeing eða Airbus þotna. Viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja hafa þó haft í för með sér að rússnesk fyrirtæki geta ekki flutt inn varahluti og aðföng í Boeing og Airbus þotur.

Í ágúst greindi Reuters frá því að rússnesk flugfélög, þar á meðal ríkisrekna flugfélagið Aeroflot, væru byrjuð að strípa niður risaþotur til að tryggja nægilegt magn af varahlutum, í samræmi við ráðlagningu rússnesku ríkisstjórnarinnar. Yfirvöld binda vonir við að þessar ráðstafanir tryggi að hægt verði að fljúga flugvélum sem framleiddar voru erlendis fram til ársins 2025.