Breskum flugfélögum hefur verið bannað að lenda á rússneskum flugvöllum sem og að fara inn í lofthelgi Rússlands en rússneska flugmálaeftirlitið tilkynnti þetta í morgun.

Eftirlitið sagði að um væri að ræða svar við „óvinsamlegu ákvörðun breskra flugmálayfirvalda“ sem bönnuðu í gær rússneska flugfélaginu Aeroflot að koma til Bretlands. Ákvörðun bresku flugmálayfirvaldanna var liður í viðskiptaþvingunum á Rússland í kjölfar innrásar í Úkraínu.

British Airways sagði í tilkynningu að félagfélagið myndi endurgreiða viðskiptavinum sem áttu bókað flug til eða frá Rússlandi að fullu. Flugfélagið hefur flogið þrisvar í viku á milli London og Moskvu. „Við biðjumst afsökunar á óþægindunum en þetta er einfaldlega mál við höfum ekki stjórn á,“ segir í tilkynningu British Airways.

Þá hefur Virgin Atlantic tilkynnt um breytta flugleið frá Bretlandi til Pakistan og Indlands. Fram kom að flugtími á þessum leiðum lengist um allt frá korteri til klukkutíma, að því er kemur fram í frétt BBC .