Dimítrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, skipaði fyrir um það í Moskvu í gær að kannað yrði hvort Rússland ætti að grípa til viðskiptaþvingana gegn sjö löndum, Íslandi þar á meðal, til viðbótar þeim löndum sem Rússar hafa þegar bannað innflutning frá. Medvedev greindi jafnframt frá því að hann myndi stýra rannsókninni sjálfur. Kemur þetta fram í Morgunblaðinu í dag.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að utanríkisráðuneytið sé að reyna að afla frekari upplýsinga um það hversu mikil alvara sé í þessu hjá Rússum.

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að viðskiptabannið hafi sett mikla hagsmuni Íslands í uppnám, en útflutningur sjávarfangs, frosinna loðnuafurða, makríls og síldar til Rússlands er á bilinu 21 til 25 milljarðar á ári, að hans sögn.