Rússneski olíu- og gasrisinn Gazprom tilkynnti í dag að náðst hafa samningar á milli fyrirtækisins og embættismanna í Úkraníu, sem bindur enda á þrátefli það sem ríkt hefur á milli þessara aðila að undanförnu. Gazprom hafði minnkað útflutning á eldsneyti til Úkraníu um helming til að styðja við kröfur sínar, en Úkranía skuldar Gazprom sem svarar ríflega 100 milljörðum króna fyrir gasnotkun á þessu ári.

Svipuð deila varð á milli aðila í fyrra, vegna skulda Úkraníu, en ríkið er búið að gera upp skuldir ársins 2007 að mestu.

Hótaði að loka fyrir gasið til Evrópu

Samkomulagið sem kynnt var í dag eru undirritað af Alexí Miller, forstjóra Gazprom, Oleg Dubina, forstjóra Naftogaz Ukraniy, ríkisolíu- og gasfélags Úkraníu, og Yulía Tymoshkenko, forsætisráðherra Úkraníu.

Sá síðarnefndi kallar samninginn sigur, að því er breska dagblaðið Financial Times greinir frá. Virðast ógnanir Tymoshenko hafa borið ávöxt, en hann hótaði því að skerða flutning á olíu og gasi frá Rússlandi til Evrópu, en það streymir um gríðarlegar leiðslur sem liggja margar hverjar í gegnum Úkraníu.

Samkomulagið gerir m.a. ráð fyrir að umdeildir milliliðir sem hafa komið að eldsneytissölunni á milli Rússland, Úkraníu og Mið-Asíu víki frá kjötkötlunum, og tryggir að gasverðið til þessara landsvæða fari ekki yfir 179,5 dollara á hverja 1000 rúmmetra. Gazprom fær einnig að keppa við Naftogaz um sölu til iðnfyrirtækja á heimamarkaði þess síðarnefnda, sem hefur ráðið þar lögum og lofum.