Nauðsyn endurreisnar kremlarfræða heldur áfram en á dögunum afboðuðu rússneskir embættismenn og þungavigtarmenn í viðskiptalífi landsins komu sína á Viðskiptaþing um Rússland í London (Russian Economic Forum), en þingið var haldið í tíunda sinn. Þinghaldarar áttu reyndar ekki von á mörgum embættismönnum en andúð stjórnvalda í Kreml á því hefur farið vaxandi en hinsvegar höfðu helstu fyrirliðar atvinnulífsins boðað komu sína. Seint í síðustu viku afboðuðu þeir unnvörpum.

Meðal þeirra sem mættu ekki á viðskiptaþingið voru Sergei Bogdanantsjikov og Alexander Medvedev sem eru á meðal helstu stjórnenda orkurisanna Rosneft og Gazprom. Í frétt Bloomberg-fréttastofunnar um málið kemur fram að í rússneskum fjölmiðlum er haft eftir ónafngreindum embættismanni að þeir hafi afboðað að áeggjan Vladímír Pútíns Rússlandsforseta. Forsetinn er sagður vilja að þeir flytji erindi sín á sambærilegri ráðstefnu sem haldin verður í Pétursborg í sumar en stofnað var til hennar til höfuðs viðskiptaþinginu í London.

Rússnesk stjórnvöld hafa sent háttsetta fulltrúa á Viðskiptaþingið um Rússland undanfarin níu ár. Bloomberg-fréttastofan hefur eftir Dmitry Peskov, talsmanni Pútíns, að eðlilega skýringu sé að finna á fjarveru embættismannanna. Viðskiptaþingið fer fram á svipuðum tíma og árlegt ávarp forsetans í rússneska þinginu. Varðandi afbókun fulltrúa atvinnulífsins sagði Peskov að stjórnvöld hefðu ekkert um ákvarðanir þeirra að segja. Bæði Rosneft og Gazprom eru í eigu rússneska ríkisins.

Þrátt fyrir að mæting á ráðstefnur sem er ætlað að leiða saman auð- og áhrifamenn kunni að vera býsna léttvægt umfjöllunarefni í hinu stærra samhengi hlutanna hefur málið vakið mikla athygli og túlka margir málið út frá óvissu um á hvaða leið Rússland sé undir stjórn Pútíns. Pavel K. Baev, sem er fræðimaður hjá Alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnunni í Osló (PRIO) skrifar á vefsíðu Jamestown Foundation að túlka megi þessa uppákomu sem hluta af aukinni "þjóðernisstefnu" stjórnvalda þegar kemur að efnahagsmálum og samskiptum við erlenda fjárfesta.