Rússar áætla nú að hefja sitt fyrsta skuldabréfaútboð í tæpan áratug en að sögn Financial Times (FT) munu Rússar ætla að nýta sér fjárfestingaþörf fjárfesta sem leita vilja í ríkisskuldabréf. Bréfin verða gefin út í Bandaríkjadölum.

Rússneska ríkið hefur ekki gefið út skuldabréf, þ.e.a.s. sem erlendum aðilum gefst kostur að bjóða í, frá árinu 2000 en nú stendur til að afla ríkinu allt að 18 milljarða dala útgáfu en bréfin verða að sögn FT öll gefin út á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

Skuldatryggingaálag rússneska ríkisins hefur lækkað nokkuð undanfarið, mælist nú í um 240 punktum en var í mars s.l. um 700 punktar. Að sögn FT stafar það meðal annars að meiri eftirspurn í áhættumeiri flokka en ríkisskuldabréf.

Viðmælendur FT telja ekki ólíklegt að nokkur eftirspurn verði í skuldabréf rússneska ríkisins. Það sýni sig meðal annars með því að óstöðugri ríki, s.s. Ungverjaland og Litháen, hafa nýlega gefið út skuldabréf sem nokkuð var boðið í og það þurfi mikið að fara úrskeiðis til að Rússar greiði ekki af skuldabréfum sínum.

Þá hefur blaðið eftir Paul BIszko, greiningaraðila hjá RBS Capital Markets að í ár, í fyrsta sinn frá árinu 1999 hafi verið halli á fjárlögum í Rússlandi og Rússar vilji með skuldabréfaútgáfu tryggja að svo verði ekki aftur á næsta ári. Þá gera greiningaraðilar ráð fyrir að Rússar vilji fá allt 60 milljörðum dala á næstu þremur árum með skuldabréfaútgáfu. Ef olíuverð helst hátt verður þó ekki þörf á svo mikilli útgáfu.

Rússar eiga nú um 400 milljarða dali í gjaldeyrisvaraforða en eru nýlega búnir að verja um 200 milljörðum dala, þá helst í það að efla viðskiptalífið heima fyrir eftir átökin við Georgíu og vegna lækkandi olíuverðs.