Rússneskir sérfræðingar telja miklar líkur á að olía finnist á landgrunninu í kringum Svalbarða.

Kemur þetta fram í Svalbardposten sem gefin er út í Longyearbyen á Svalbarða, en áhugi Rússa hefur fallið í grýttan  jarðveg hjá Norðmönnum.

Rússar hafa um árabil haft áhuga á olíuvinnslu á Svalbarða. Lýsti talsmaður Rússa í rússneska kolanámubænum Barentsburg  á Svalbarða t.d. yfir megnri óánægju með yfirgangssemi Norðmanna á Svalbarða árið 2003. Taldi hann Norðmenn þá reyna að útiloka olíuleit og vinnslu Rússa á svæðinu með setningu á hertum umhverfisreglum.

Nú eru þessi mál greinilega komin í umræðuna aftur, en málið var m.a viðrað á olíu- og gasráðastefnunni Arctic Shelf sem haldin var í Murmansk í Rússlandi í síðustu viku.

Á ráðstefnunni kom fram að Rússar hafi stundað bergmálsmælingar á landgrunninu undan vesturströnd Svalbarða undanfarin sex ár.

Segja rússneskir sérfræðingar að jarðfræðileg uppbygging landgrunnsins sé mjög lík þeim svæðum í Barentshafi þar sem þegar hefur fundist olía og gas.

Norsk yfirvöld hafa skilgreint landgrunnið umhverfis Svalbarða sem framlengingu af meginlandsgrunni Noregs og botninn tilheyri því Noregi. Hafa Norðmenn ekki viljað opna fyrir olíurannsóknir við Svalbarða til þessa.

Þá hefur norska utanríkisráðuneyti gert Rússum ljóst að rússneska rannsóknaskipið Professor Kurentsov fái ekki endurnýjun á fyrra rannsóknarleyfi á landgrunninu við Svalbarða. Virðist því stefna í verulega kólnandi andrúmsloft í samskiptum Rússa og Norðmanna á norðurslóðum vegna olíumála.