Tilkynnt var um samkomulag milli Rússa annarsvegar og Kasaka og Túrkmena hinsvegar um helgina um lagningu gasleiðslna frá síðarnefndu löndunum til Rússlands. Með samkomulaginu mun staða Rússa á evrópska orkumarkaðinum styrkjast enn frekar en Evrópuríki auk Bandaríkjanna hafa reynt að draga úr vægi innflutnings á rússneskum gasiðnaði og hafa í því skyni reynt að fjármagna lagningu leiðslu sem myndi flytja gas frá Kaspíahafi til Evrópu gegnum Aserbaídsjan eða Tyrkland.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti skrifaði undir samkomulagið við Gurbanguly Berdymukhammedov, forseta Túrkmenistan, og Nursultan Nazarbayev, forseta Kasakstan, í hafnarborginni Túrkmenabashi við Kaspíahaf á laugardag. Samkomulagið þykir mikill sigur fyrir Rússa en þeir hafa att kappi við Vesturlönd um að tryggja sér flutning á hinni miklu orku sem er að finna í Mið-Asíu. Gasleiðslan mun fara frá Túrkmenistan gegnum Kasakstan til Rússlands þar sem hún tengist leiðsluneti Rússa sem liggur til Evrópu.

Túrkmenistan er ákaflega auðugt af jarðgasi, en það er næst stærsti útflytjandi þess í fyrrum Sovétlýðveldunum á eftir Rússlandi. Að sama skapi eru miklar olíulindir Kasakstan. Nú þegar fer nánast allt jarðgas í Túrkmenistan gegnum rússneskar leiðslur og það sama gildir um meginþorra olíuútflutnings Kasaka. Undanfarin ár hafa leiðtogar í Evrópu í vaxandi mæli efast um hentugleika þess að vera jafn háðir Rússum um gasinnflutning og hafa sýnt því áhuga á að tryggja sér aðgang að gasi frá öðrum ríkjum og horft til ríkjanna sem liggja að Kaspíahafi í því samhengi. Að sama skapi hafa Bandaríkjamenn horft til olíuauðlinda Kasaka með það að augnamiði að draga úr innflutningi frá hinum óstöðugu olíuútflutningsríkjum í Miðausturlöndum. Ljóst er að samkomulagið frá því um helgina grefur verulega úr möguleikum Vesturlanda að sniðganga Rússa þegar kemur að því að fá aðgang að orkuauðlindum Mið-Asíu.