Haft er eftir Vladimir Pútín, rússlandsforseta, að ríkisstjórn Rússlans sé á varðbergi vegna mikillar lækkunar á olíuverði á síðustu mánuðum. Frá því um miðjan júní hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað um þrjátíu prósent en Rússar finna verulega fyrir þeirri lækkun.

Gengi rúblunnar hefur lækkað um 23% gegn dollar á síðustu þremur mánuðum og gerir Seðlabankinn í Rússlandi ekki ráð fyrir neinum hagvexti árið 2015. Þar eru lækkandi olíuverð og viðskiptaþvinganir í kjölfar Úkraínudeilunnar helstu áhrifavaldar.

Pútín mætti í dag til Brisbane í Ástralíu til að taka þátt í G20 ráðstefnunni sem fer fram yfir helgina en í erindi sínu þar viðurkenndi hann að möguleiki er á enn frekari lækkun olíuverðs á næstunni og að rússar verði að vera búnir við slíku áfalli.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times .