Það er um fátt annað rætt í hinum alþjóðlega fasteignaheimi en hina rán-, rán-, rándýru „Villa Leopolda“ á frönsku Rívíerunni, sem byggð var af Leópoldi II, Belgíukonungi, árið 1902. Rússneskur auðkýfingur keypti villuna fyrir metfé, eða 750 milljónir dollara (tæpa 62 milljarða íslenskra króna), sem gerir hana að dýrustu fasteign heims. Upphaflega var talið í slúðurheimi eðalfasteignakaupa að kaupandinn væri hinn frægi Roman Abramovich, en hann hefur neitað því.

Að sögn blaðamanns Forbes var enda erfitt að trúa þeim sögusögnum, í ljósi þess að Abramovich fékk nýlega leyfi fyrir byggingu draumahúss í Kensington-hverfi Lundúna sem kosta mun litlar 285 milljónir dollara. Blaðamaður Forbes segir 750 milljónir dollara vera fáheyrt verð og miklu hærra en gangverð eðalfasteigna, jafnvel á Rivíerunni. Þó séu kaupin alls ekki ótrúleg, þar sem slíkur kaupdólgsháttur hafi færst mjög í vöxt með tilkomu rússneskra auðmanna.

„Á hverju ári koma fleiri Rússar í húsaveiðar á Rivíerunni,“ hefur Forbes eftir franska lúxus-fasteignasalanum Baris Basaran hjá Expat Consulting, fasteignasölu í Vín sem sérhæfir sig í Rivíerunni. Basaran segir samkeppni nýju Rússanna ekki snúast endilega um hve mikið þeir eigi, heldur hve miklu þeir eyða.