Sigurður Viðarsson hefur gegnt starfi forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar síðan í október árið 2007. Hann tók við starfinu af Óskari Magnússyni í kjölfar eigendaskipta hjá félaginu. FL Group keypti þá félagið af Glitni banka, Hnotskurn og Samherja og átti eftir viðskiptin 83,7% hlut í félaginu. Sigurður hefur því varla siglt lygnan sjó eftir að hann tók við störfum og hefur leitt félagið í gegnum efnahagsþrengingar síðustu ára.

„Á köflum hefur þetta verið heilmikil rússíbanareið,“ segir Sigurður. „Ég hef því miður ekki haft mikinn tíma undanfarin ár til að sinna áhugamálunum. En á sumrin reynum við fjölskyldan að nýta tímann vel og förum í útilegur og gönguferðir,“ segir Sigurður. Hann er mikill útivistarmaður og hefur áhuga á golfi, stangveiði og skíðum. Hann lætur þó ekki þar við sitja heldur er einnig mikið fyrir bæði mótorhjól og vélsleða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.