Miklar sveiflur hafa verið á gengi rafmynta undanfarna daga. Bæði bitcoin og ethereum hafa fallið í verði um 25% á einni viku og gengi bitcoin fór í dag undir 30.000 dollara í fyrsta skipti síðan í júlí í fyrra.

Áhugamenn um rafmyntir hafa fylgst grannt með stöðugleikamyntinni (e. stablecoin) TerraUSD sem var hönnuð til þess að fylgja eftir virði Bandaríkjadollars. Verðið á myntinni ætti því alltaf að vera 1 USD, en eftir miklar sveiflur á rafmyntamörkuðum missti myntin tengingu sína við Bandaríkjadollarann og fór niður í 80 sent á mánudaginn. Eftir miklar sveiflur í dag og í gær hefur stöðugleikamyntin tapað helmingi af verðgildi sínu og er í kringum 50 sent þegar þetta er skrifað.

Milljarðar Bandaríkjadala í vaskinn

Til þess að viðhalda TerraUSD myntinni stöðugri er notast við algrím sem kaupir og selur ýmsa fjármálagerninga, þar á meðal rafmyntina LUNA frá sömu samtökum. Þegar TerraUSD fór að missa tenginguna við Bandaríkjadollarinn var gefið út milljónir nýrra mynta af LUNA sem olli verðhruni á myntinni og á tímabili í dag hafði gengið fallið um 95%. Gengi myntarinnar náði hápunkti sínum fyrir aðeins mánuði síðan þegar verðið á henni fór upp í 118 dollara, en er komið niður í 2,6 dollarar þegar þetta er skrifað.

Í byrjun apríl á þessu ári var heildar markaðsvirði myntarinnar um 40 milljarðar Bandaríkjadala en er nú um 2,7 milljarðar. Andvirði 37 milljarða Bandaríkjadala hefur því þurrkast út á aðeins einum mánuði sem jafngildir um 150% af vergri landsframleiðslu Íslands.