Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur veitt franska leikaranum Gérard Depardieu, ríkisborgararétt í Rússlandi. Leikarinn hefur lýst því yfir að hann ætli að flytja frá Frakklandi vegna hátekjuskattastefnu Francoise Hollande, forseta Frakklands. Forsetinn vill að franskir auðmenn greiði 75% skatt af tekjum yfir einni milljón evra.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir að á vef rússneska stjórnarráðsins hafi yfirlýsing birst þessa efnis fyrir skömmu og hefur eftir talsmanni Pútins, að Depardieu hafi sótt um ríkisborgararéttinn. Ákveðið hafi verið að veita honum réttinn vegna stöðu Depardieu í menningarmálum og vegna leiks hans í kvikmyndum sem fjalla um sögu Rússlands. Depardieu lék hinn umdeilda og vafasama Grigori Raspútín, ráðgjafa Alexöndru keisaraynju, í franskri sjónvarpsmynd árið 2011.