Að lána litla Íslandi 4 milljarða Bandaríkjadali er allt of mikill biti fyrir Rússland.

Þetta hefur Reuters fréttastofan eftir Dmitry Pankin, aðstoðarfjármálaráðherra Rússlands en að sögn Reuters kom Ísland heimsbyggðinni í opna skjöldu nýlega með því að biðja Rússa um lán.

Í samtali Pankin við Reuters talar hann um að lána Íslandi Bandaríkjadali en ekki evrur.

Pankin minnir á að stjórnvöld þar í landi hafi áætlað að eyða um 200 milljónum dala til aðstoðar fjármálakerfinu þannig að fjögurra milljarða dala lán væri of stór biti fyrir Rússland.

Hann sagði hins vegar að Rússar geti lánað Íslandi 500 milljónir dala ef íslensk stjórnvöld óska eftir því.