Fasteignamarkaður í Rússlandi hefur verið í frjálsu falli eftir hrun verðbréfamarkaðarins í september 2008 samkvæmt úttekt Global Price Guide. Er það þrátt fyrir að fjölmargir fjármálaspekúlantar hafi talið að fasteignamarkaðurinn þar í landi væri ónæmur fyrir vandræðum í kjölfar lánakrísunnar í Bandaríkjunum.

„Fjandinn varð laus eftir að rússneski hlutabréfamarkaðurinn hrundi í desember 2008 sem orsakaðist af smiti af heimskreppunni. Þá áttuðu menn sig á því að hættulega mikill hagvöxtur í Rússlandi gat ekki staðist í fallandi orku og hráefnisverði.”

Samkvæmt tölum GPG var fasteignaverð enn að hækka í Rússlandi á fyrsta ársfjórðungi 2008. Í Moskvu nam hækkunin í endursölu þá um 30% á milli ára. Þegar leið á árið fór að hægja um og á fjórða ársfjórðungi féll verðið um 8-10% frá fyrra ársfjórðungi. Dæmi hafa þó verið um enn meiri verðlækkanir eða allt að 30%.

GPG telur að verðfallið muni halda áfram og verða um 20% til 25% á ódýrara nýju húsnæði og um 30% á dýrara húsnæði. Á eftirmarkaði verði verðfallið um 20% til 35%.

Þetta eru gríðarleg umskipti á fasteignamarkaðnum í Rússlandi. Á árunum 2000 til 2007 hafði fasteignaverð á nýju húsnæði hækkað um hvorki meira né minna en 362% og 435,8% á eftirmarkaði. Telur GPG að niðursveiflan nú muni hafa verulega slæmar afleiðingar og það geti tekið Rússa töluverðan tíma að vinna sig út úr vandanum.