Rússland hyggur á skuldabréfaútgáfu í kínverskum júönum sem nemur 130 milljörðum íslenskra króna. Þetta er í fyrsta skipti sem Rússland gefur út skuldabréf í kínverska gjaldmiðilinum en þetta gæti mögulega opnað á nýjar lánalínur fyrir Rússland, en helstu fjármálamarkaðir eru lokaðir fyrir landið vegna efnahagsþvinganna vesturlanda.

Útgáfan er einnig talin auka á alþjóðlegt gildi kínveska júansins, en gjaldmiðillinn var m.a. nýlega tekinn inn í myntkörfu AGS. Þessi útgáfa eykur einnig líkurnar á því að Kína gefi út skuldabréf í rússneskum rúblum og auki þar með enn frekar á vægi þessara gjaldmiðla og grafi undan Bandaríkjadollar sem alþjóðagjaldmiðli.

Bæði Kína og Rússlands segja einnig að útgáfan muni auðvelda viðskipti milli ríkjanna, en hingað til hefur þurft að eiga í gjaldeyrisviðskiptum með milligöngu Bandaríkjadals.