Seðlabanki Rússlands hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 2%, úr 17% í 15%, þar sem „stöðugleiki er að komast á verðbólguna“ þar í landi. BBC News greinir frá þessu.

Seðlabankinn hafði hækkað stýrivexti úr 10,5% í 17% um miðjan desember síðastliðinn vegna hríðlækkandi gengis rússneska gjaldmiðilsins gagnvart Bandaríkjadal. Lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og viðskiptaþvinganir höfðu þá haft mikil áhrif á gengið auk þess að valda mikilli verðbólgu í landinu.

Nú segir seðlabankinn hins vegar aðstæður til þess að lækka stýrivextina aftur. Gengi rúblunnar féll um 2,4% gagnvart dalnum við tíðindin og kostar dalurinn nú um 70 rúblur.