Stjórnvöld í Moskvu hafa komið einum af helstu olígörkum landsins, Mikhail Friedman, til bjargar og veitt honum lán úr sérstökum björgunarsjóð sem var stofnaður á dögunum til þess að aðstoða fyrirtæki og banka við endurfjármagna erlendar skuldbindingar.

Aðstoðin leiðir meðal annars til þess að Friedman heldur hlut sínum í einu stærsta farsímafyrirtæki Rússlands.

Samkvæmt heimildum The Wall Street Journal ætlar rússneska ríkið að koma stórfyrirtækinu Alfa Group til hjálpar.

Auðjöfurinn Mikhail Friedman fer með ráðandi hlut í Alfa, en fyrirtækið er eitt það fyrsta í Rússlandi sem fær aðgang að 50 milljarða Bandaríkjadala björgunarsjóði stjórnvalda í Moskvu.

Fyrirgreiðslan verður notuð til þess að borga upp 2 milljarða dala sambankalán sem var veitt undir forystu Deutsche Bank.

Með þessu sleppur Fridman við að láta frá sér 44% hlut í einu stærsta farsímafyrirtæki Rússlands, en hann hafi verið settur fram sem veð fyrir láninu frá Deutsche Bank.

Kreppan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur gert það að verkum að rússneskir auðkýfingar og fyrirtæki hafa fengið í auknu mæli veðköll frá alþjóðlegum bönkum.

Í sumum tilfellum er um að ræða lán með veðum í eignum í iðnaðargeirum sem stjórnvöld Moskvu líta á sem mikilvæga fyrir ríkishagsmuni.

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun.