Rússnesk stofnun, sem meðal annars hefur það að hlutverki að ritskoða internetið þar í landi, hefur ákveðið að banna rússnesku útgáfuna af Wikipedia. Financial Times greinir frá þessu.

Ritskoðun rússneskra stjórnvalda á internetinu hefur farið vaxandi að undanförnu. Þau segja ástæðuna fyrir banninu vera grein sem birtist á síðunni um Charas, sem er form af kannabisefnum. Þar var að finna ítarlegt yfirlit um sögu efnisins og leiðbeiningar um framleiðslu, sem taldar voru brjóta gegn rússneskri löggjöf.

„Við höfum gefið fjarskiptafyrirtækjum fyrirmæli um að loka fyrir vefsíðuna þar sem hún inniheldur ólögmætar upplýsingar um eiturlyf,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni. Aðstandendur vefsíðunnar hafa mótmælt ákvörðuninni og ætla að kæra hana.