Hrun rússnesku rúblunnar og ástand efnahagsmála þar er farið að hafa áhrif utan landamæra landsins. Í Hvítarússlandi hafa stýrivextir verið meira en tvöfaldaðir og eru nú 50% og settur hefur verið 30% skattur á gjaldeyriskaup innlendra aðila.

Í frétt Financial Times er haft eftir talsmanni hvítrússneska seðlabankans að skatturinn hafi verið settur á vegna „aukinnar eftirspurnar eftir erlendum gjaldeyri á heimamarkaðnum“. Á árinu hefur gengi hvítrússnesku rúblunnar veikst um 15% gagnvart Bandaríkjadal, en í gær féll gengið um 5,5% og hefur ekki verið veikara síðan árið 1998.