Rússneska öryggisþjónustan FSO, sem hefur það hlutverk að tryggja öryggi opinberra persóna eins og forsetans, hefur pantað gamaldags ritvélar fyrir hátt í 500.000 rúblur, andvirði um 1,8 milljóna króna, að því er segir í frétt BBC.

Öryggisþjónustan hefur ekki tjáð sig um pöntunina, en dagblaðið Izvesiya hefur eftir heimildarmanni innan FSO að markmiðið sé að draga úr líkum á því að viðkvæmar upplýsingar leki til fjölmiðla eða fjandsamlegra ríkja.

Eftir að fréttir bárust af því að samtöl Dmitry Medvedev, þáverandi forseta Rússlands, hafi verið hleruð á G20 fundinum í London 2009 og nú eftir uppljóstranir Edward Snowden um njósnir bandarískra yfirvalda var ákvörðun tekin í Moskvu um að færa hluta af gagnavinnslu FSO úr tölvum og á pappír.

Ritvélar eru nú þegar notaðar við vinnslu viðkvæmra gagna hjá rússneskum yfirvöldum en nú á að auka notkunina. Ritvélar hafa þann kost, ólíkt prenturum, að auðvelt er að rekja skjöl til nákvæmlega þeirrar vélar sem notuð var við ritunina. Þetta eykur líkur á því að hægt sé að finna sökudólga komi til þess að mikilvægar upplýsingar rati í rangar hendur.