Fimm Saab Gripen herþotur eru á Keflavíkurflugvelli og sinna loftrýmisgæslu næstu tvo mánuði. Þoturnar eru frá Tékklandi og komu hingað til lands þann 10. október síðastliðinn. Þær verða staðsettar á Keflavíkurflugvelli fram til 3. desember og er það liður í því að tryggja öryggi í íslenskri lofthelgi af hálfu NATO.

Rúmlega 70 manns eru hér á landi vegna verkefnisins og kom megnið af mannskapnum til landsins þann 6. október. Upphaflega stóð til að loftrýmisgæslan stæði einungis yfir í fimm vikur en vegna ástandsins í Úkraínu og að rússneskar herflugvélar hafi sést í íslenskri lofthelgi var ákveðið að verkefnið skyldi vera meira að umfangi.

Þetta er haft eftir fréttavefnum Jane's Defense Weekly sem sérhæfir sig í varnarmálum.

Uppfært klukkan 15:29

Í upplýsingum frá utanríkisráðuneyti kemur fram að það sé rangt að rússneskar herflugvélar hafi rofið íslenska lofthelgi. Hið rétta sé að rússneskar herflugvélar hafi einu sinni komið inn fyrir íslenska loftrýmiseftirlitssvæðið á þessu ári, sem sé mun stærra en lofthelgin sjálf.

Í kjölfar upplýsinganna hefur fyrirsögninni „Rússneskar herflugvélar í íslenskri lofthelgi,“ sem benti til þess að þær hafi sést innan hennar, verið breytt í „Loftvarnir auknar vegna umsvifa Rússa.“