Helstu vísar á fjármálamarkaði í Rússlandi bentu upp á við í dag eftir niðursveiflu í gær í kjölfar þess að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu. Micex-hlutabréfavísitalan í kauphöllinni í Moskvu hækkaði um rúm 4% í dag þegar best lét en gaf aðeins eftir þegar á leið. Í gær féll hún hins vegar um tæp 11%. Þá hefur gengi rússnesku rúblunnar styrkst eilítið eftir talsverða gengisveikingu í gær. Gengið lækkaði um 1,5% gagnvart helstu viðskiptamyntum og hafði það þá aldrei verið lægra. Seðlabankinn Rússlands brást við með hraði og hækkaði stýrivexti óvænt um 150 punkta. Við það fóru stýrivextir í Rússlandi í 7%.

Titringurinn á fjármálamarkaði í Rússlandi og innrás Rússa inn á Krímskaga smitaði út frá sér á alþjóðlega fjármálamarkaði í gær en almennt lækkuðu hlutabréfavísitölur um 2-3% á meginlandi Evrópu í gær en í kringum 1% í Bandaríkjunum.

Reuters-fréttastofan sem fjallar um málið segir gengislækkunina á rússneskum hlutabréfamarkaði í gær hafa jafngilt því að 60 milljarðar bandaríkjadala, um 6.700 milljarðar íslenskra króna, hafi gufað upp.