Rússneski hlutabréfamarkaðurinn tók stökk í morgun en kauphöllin í Moskvu opnaði í fyrsta sinn í nærri mánuð eða frá því að Vesturlönd beittu Rússlandi viðskiptaþvingunum vegna innrásarinnar í Úkraínu. MOEX vísitalan hefur hækkað um tæplega 5,5% í dag en hins vegar er einungis búið að opna á viðskipti með hlutabréf 33 af 50 félaga í vísitölunni.

Hlutabréf rússneska olíurisans Gazprom hækkuðu um 13% en olíu- og orkuverð hafa hækkað töluvert frá því að lokað var á viðskipti í kauphöllinni þann 25. febrúar.

Sjá einnig: Pútín vill rúblur fyrir jarðgasið

Í umfjöllun WSJ segir að aðgerðir rússneskra stjórnvalda hafi varpað skugga á opnunina. Rússneski seðlabankinn bannaði skortsölu og setti á hömlur þannig að erlendir fjárfestar geta ekki selt bréf sín, m.a. til að verja rúbluna. Þá keypti rússneskur þjóðarsjóður hlutabréf að andvirði nærri 10 milljörðum dala, eða um 1.290 milljörðum króna.