Tuttugu ríkustu menn Rússlands hafa samanlagt tapað tíu milljörðum bandaríkjadollara í þessari viku eftir að gengi rúblunnar féll og að Seðlabanki Rússlands ákvað að hækka stýrivexti um 6,5% á einum degi upp í 17%. Það sem af er ári hafa þessir sömu menn samanlagt tapað um 62 milljörðum bandaríkjadollara samkvæmt Bloomberg Billionaires vísitölunni en samanlagt stýra þeir eignum að andvirði 174 milljarða bandaríkjadollara.

Sá sem hefur tapað mest á efnahagslægð Rússlands af 20 efnuðustu mönnum landsins er Leonid Mikhelson en hann hefur tapað 8,7 milljörðum bandaríkjadollara á árinu samkvæmt vísitölu Bloomberg. Hann er forstjóri OAO Novatek sem er annar stærsti náttúrugasframleiðandi Rússlands.

Sá eini á lista Bloomberg sem ekki hefur tapað fjármunum í vikunni er Oleg Deripaska sem á 48% hlut í United Co. Rusal sem er stærsti álframleiðandi heimsins og er skráð félag í kauphöllinni í Hong Kong. Hann hefur grætt 855 milljón bandaríkjadala á árinu en lækkandi gengi rúblunnar kemur sér vel fyrir málmframleiðendur sem gera upp kostnað sinn í rúblum og hafa tekjur í erlendri mynt.

Nánar er fjallað um málið á vef Bloomberg.