Athygli vakti við Bjarnarbúð í Reykholti í Biskupstungum á fimmtudag í síðustu viku þegar þyrla með fjórum mönnum lenti á bílastæði við búðina. Eftir nokkurra mínútna stopp við búðina héldu mennirnir áfram til Rangárvallasýslu og þaðan til Reykjaness. Sunnlenska fréttablaðið segir þarna hafa verið á ferð fjóra rússneska auðmenn sem hafi verið á ferð um landið í leit að hentugu landsvæði til kaupa. Héðan hafi þeir farið til Anchorage í Alaska í sömu erindagjörðum.

Í blaðinu kemur fram að ferðaskrifstofan Luxury Adventures hafi staðið fyrir ferð fjórmenninganna hér.

Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs ferðaskrifstofunnar, segir í samtali við Sunnlenska ferðina hafa verið skipulagða út í ystu æsar, bílar hafi verið til taks á öllum áfangastöðum. Einn hafi verið tilbúinn til að aka mönnunum að Gullfossi, annað beið við Rangá og sá þriðji í Reykjavík. Karl vildi ekki segja hvaða menn þetta voru.

Þá segir í blaðinu að þyrla Luxury Adventures hafi nokkrum sinnum áður lent við Bjarnarbúð í Biskupstungum í svipuðum tilgangi.

Viðskiptablaðið hefur ekki náð sambandi við Karl. Hann mun staddur erlendis.