Norskir, rússneskir og kínverskir ferðamann kaupa dýrustu hlutina hér á landi. Hæsta meðalfærslan er hjá fólki með kort útgefin af þessum þjóðum.

Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu deildarinnar um vöxt og væntingar ferðaþjónustunnar sem kom út í dag. Þá kemur fram sé miðað við fjölda ferðamanna frá hverju landi sést að það eru rússneskir ferðamenn sem versla að meðaltali mest. Rússarnir eyddu á síðasta ári 103% meira en Norðmenn sem koma næstir. Sala varnings á hvern Rússa dróst þó saman um 20% á milli áranna 2011 og 2012.

Í skýrslu Landsbankans er vísað í tölur Seðlabankans um kortaveltu sem gefa ágætis mynd af heildarneyslu erlendra ferðamanna hér á landi. Tölurnar greina hins vegar ekki þjóðerni ferðamanna.

Þá kemur fram að til að gera sér grein fyrir því hvaða ferðamenn neyta mest, í heild og hlutfallslega, er hægt að skoða tölur um endurgreiðslu á virðisaukaskatti.

„Erlendir ferðamenn geta fengið á bilinu 12-15% endurgreiðslu af söluupphæð vöru sem keypt er hér á landi (Tax free). Hafa ber í huga að ekki nýta allir ferðamenn sér endurgreiðslu virðisaukaskatts, og þá er endurgreiðslan einungis af vörukaupum en ekki af annarri neyslu hér á landi,“ segir í skýrslunni en þó er settur á sá fyrirvari að hluti þeirra Norðurlandabúa sem fá endurgreiðslu hér á landi geta verið Íslendingar búsettir þar, en þeim hefur fjölgað töluvert á undanförnum árum.

Þá kemur fram að þegar skoðaðar eru tölur um endurgreiðslu á virðisaukaskatti má sjá að það eru Norðmenn sem eyða mestu í vörur sem hægt er að fá endurgreiðslu af. Árið 2009 voru það Danir sem keyptu mest á þennan mælikvarða samkvæmt skýrslunni, en sala til þeirra hefur dregist mikið saman undanfarin ár og heildarupphæðin sem Danir keyptu fyrir í „Tax free“ verslunum lækkaði um 43% frá árinu 2009 til 2012.