Hlutabréfaverð og gengi rússnesku rúblunnar hækkaði á fjármálamörkuðum í Rússlandi í dag eftir að forsætisráðherrann Vladimír Pútín fór með sigur af hólmi í forsetakosningum í gær. Pútín fékk um 60% atkvæða sem var meira en búist var við. Eftirlit með kosningunum á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu leiddi í ljós að svindlað hafi verið í kosningunum á sumum stöðum í landinu, sums staðar hafi það verið ærið svæsið.

Hlutabréfaverðið hefur verið á fleygiferð í Rússlandi upp á síðkastið og hefur aðalvísitala hlutabréfa hækkað um 24% síðan í desember í fyrra. Þá gengu gengi rúblunnar ekki verið hærra í hálft ár. Micex-vísitalan hefur það sem af er degi hækkað um 1% og RTX-vísitalan um 0,18%. Það er þvert á þróunina á öðrum hlutabréfamörkuðum í Evrópu í dag.

Í netútgáfu bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal kemur fram að rússneski hlutabréfamarkaðurinn sé með þeim sem hafi skilað fjárfestum bestu ávöxtuninni á árinu.

Fjárfestar hlusta á Pútín

Keppinautar Pútíns hafa ekki tekið jafnvel í niðurstöður kosninganna og hann og hafa þeir boðað til fundar á Púskín-torgi við Kremlarmúra í Moskvu síðdegis í dag. Á Facebook-síðu þar sem fundurinn er boðaður höfðu 9.000 manns sagst ætla að mæta. Breska viðskiptablaðið Financial Times bætir því við að fjárfestar muni horfa til þess hvernig mótmælin muni þróast.

Blaðið hefur jafnframt eftir Ivan Tsjakarov, aðalhagfræðingi rússneska fjármálafyrirtækisins, Renaissance Capital, að flestir muni öðru fremurh hlusta eftir þeim skilaboðum Pútín sendi erlendum fjárfestum og því hvort hann ætli sér að taka á spillingu í landinu.