*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 1. desember 2011 19:54

Rússneskir ráðamenn hluthafar í Bravó?

Í rannsóknarskýrslu Kroll segir óljóst hverjir hafi átt Bravo með Björgólfsfeðgum þegar það var selt Heineken.

Ritstjórn
Björgólfur Thor Björgólfsson.
Haraldur Jónasson

Árið 2002 fékk Björgólfur Thor Björgólfsson um 110 milljónir dala í sinn hlut fyrir sölu bruggverksmiðju í Pétursborg í Rússlandi. Fjórum árum síðar voru auðæfi hans metin á um þrjá milljarða dala. Spurningin er hvernig fór Björgólfur Thor að því að ná svona stórkostlegum árangri í Rússlandi og hvernig fjármagnaði hann fjárfestingar sínar í framhaldinu?

Þetta er m.a. þess sem fram kemur í rannsóknarskýrslu Kroll, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, um Björgólf Thor sem Kroll vann fyrir lyfjafyrirtækið Barr Pharmaceutical árið 2006 en fjallað var um málið í Kastljósi Ríkisjónvarpsins. Í umræddri rannsóknarskýrslu er ýjað að því að Björgólfur hafi unnið með pólitískum áhrifamönnum í Rússlandi og þeir jafnvel verið hluthafar í bjórverksmiðjunni með Björgólfsfeðgum.

Í henni kemur einnig fram að algerlega óljóst sé hverjir voru hluthafar í Bravo-bruggverksmiðjunni frá 1997-2002 auk Björgólfsfeðga; en eignir verksmiðjunnar höfðu verið fluttar í annað félag 1997 þegar Ingimar Ingimarsson hugðist ganga að því.

Fyrir liggur að Bravo var ekki í eigu Björgólfsfeðga heldur í eigu hóps fjárfesta þegar fyrirtækið var selt Heineken árið 2002. Í skýrslu Kroll er þeirri spurningu varpað fram að hugsanlega hafi fyrrverandi fjarskiptaráðherra Rússlands, Leonid Reiman, verið hluthafi eða þá aðilar honum tengdir, og þá gegnum danska lögfræðinginn Jeffrey Galmond en nokkur lönd hafa umsvif hans tengd Rússlandi til rannsóknar.

Bent er á að Galmond hafi nú aðeins einn viðskiptavin, umræddan Reiman, en árið 2002 hafi Galmond einmitt unnið fyrir Bravo og Björgólfsfeðga vegna sölunnar á Bravo til Heineken.