Apple-umboðið á Íslandi hefur selt frá sér starfsemi sína í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Kaupandi er rússneska félagið ECS Group. Að sögn Bjarna Ákasonar, framkvæmdastjóra félagsins, var endanlega gengið frá sölunni í upphafi vikunnar og hefur félagið verið afhent eins og kom fram í Viðskiptablaðinu í gær.

Aðspurður sagðist Bjarni vera sáttur við söluverðið en danska ráðgjafarfyrirtækið Sal Sörensen og Partners aðstoðaði við söluna. ECS Group rekur 50 Apple-verslanir í Rússlandi og átta í Þýskalandi. Það tekur nú við níu verslunum í Danmörku, fimm í Noregi og einni í Svíþjóð. Félagið Skakkiturninn keypti verslanir Apple á Íslandi á síðasta ári eftir að rekstrarfélagið Humac fór í þrot, en það er í eigu Bjarna og Valdimars Grímssonar. Að sögn Bjarna er ætlunin að einbeita sér að rekstrinum á Íslandi.

Einingin sem nú er verið að selja var byggð upp á meðan Bjarni átti félagið en hann og meðhluthafar hans seldu það til íslenskra fjárfesta árið 2007. Við uppbygginguna í Skandinavíu var félagið sameinað við fyrirtæki sem hét Office Line og var skráð í norsku kauphöllina.

Félagið rek eins og áður sagði 15 verslanir í þessum þremur löndum, flestar í Danmörku eða níu talsins en þar hefur stærsti hluti af veltu félagsins verið. Fimm verslanir eru í Noregi og ein í Svíþjóð.