Flug malæsíska flugfélagsins Malaysian Airlines, sem hrapaði í Úkraínu í júlí í fyrra, var grandað af rússnesku flugskeyti af gerðinni Buk, að því er segir í frétt BBC. Er þetta niðurstaða rannsóknar hollensku flugslysanefndarinnar. Vélin var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur.

Alls fórust 298 manns þegar vélin hrapaði og þar af voru 196 Hollendingar.

Ekki er fullyrt í skýrslunni hver kynni að hafa skotið flugskeytinu í átt að flugvélinni, en Vesturveldin og Úkraína halda því fram að uppreisnarmenn, sem njóta stuðnings Rússa, beri ábyrgð, en Rússar kenna Úkraínumönnum um. Þótt Buk flugskeytin séu framleidd í Rússlandi eru þau í notkun hjá herjum bæði Rússlands og Úkraínu.

Úkraínsk yfirvöld eru þó gagnrýnd fyrir það að hafa ekki lokað loftrýminu yfir landinu vegna átakanna sem þá stóðu yfir.