Rússneska farsímafyrirtækið Mobile TeleSystems á í viðræðum um að fjárfesta í pólska símafyrirtækinu Netia, sem er að hluta til í eigu fjárfestingafélagsins Novators, segir í frétt pólska dagblaðsins Parkiet.

Töluverðar vangaveltur hafa verið um áætlanir Novators, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, í Póllandi síðan tilkynnt var að Lehman Brothers væri með 65% kaupréttarhlut félagsins í búlgarska símafyrirtækinu BTC í sölumeðferð.

Novator hefur verið að losa fjarskipafjárfestingar í Mið- og Austur-Evrópu og fyrirtækið seldi meðal annars hlut sinn í fyrr tékkneska fjárskiptafyrirtækið Ceske Radiokomunikace í fyrra og nam söluhagnaðurinn 56 milljörðum. Fyrirtækið hefur einnig minnkað við sig í gríska internetfyrirtækinu Forhtnet og Play, sem er farsímaarmur Netia.

Talsmaður Netia í Póllandi, Jolanta Ciesielska, segist ekki vita til þess að viðræður við Mobilie TeleSystems hafi átt sér stað og bætir við að fyrirtækið tjái sig ekki um orðróm. Talsmenn Novators hafa lýst því yfir að félagið sé reiðubúið að selja í fyrirtækjum í Austur-Evrópu.

Novator hyggst hins vegar vinna markvisst að innri uppbyggingu fyrir þriðju kynslóð farsíma í Póllandi. Auk þess hefur íslenska dótturfélagið Nova fengið tilraunaleyfi fyrir þriðju kynslóð farsíma á Íslandi og sótt um rekstrarleyfi sem úthlutað verður í næsta mánuði. Fjárfesting Novators í Póllandi er fyrirtækinu gríðarlega mikilvæg og af allt öðrum toga en í Tékklandi og Búlgaríu, segir talsmaður Novators.