Athygli vekur að rússneski auðkýfingurinn Alisher Usmanov, sem jafnframt er stærsti eigandi enska knattspyrnuliðsins Arsenal, skuli hafa skotið upp kollinum á lista yfir 20 stærstu skuldara íslensku bankanna rétt fyrir hrun þeirra.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er að finna lista yfir 20 stærstu skuldarana, annars vegar í árslok 2007 og hins vegar í lok september 2008, viku fyrir hrun bankanna. Listanum voru gerð nánari skil hér á vb.is fyrr í dag.

Usmanov situr í 17. sæti listans í lok september 2008 en nafn hans er ekki á listanum yfir 20 stærstu skuldarana í lok árs 2007. Því má gera ráð fyrir að hann hafi fengið umtalsverða lánafyrirgreiðslu einhverjum íslensku bankanna á árinu 2008, í það minnsta aukið skuldir sínar ef einhverjar voru áður.

Í lok september skuldaði Usmanov um 237 milljónir evra, eða um 34,5 milljarða króna. Listinn er byggður á útlánum Landsbankans, Kaupþings og Glitnis en ekki niðurbrotinn eftir hverjum banka.

Usmanov er þekktur auðjöfur í Rússlandi og var nr. 100 á lista Forbes yfir ríkustu menn heims árið 2007. Hann er hvað þekktastur fyrir rekstur náma, stál- og járnverksmiðja og skógarhöggsfyrirtækja en að mati Forbes eru auðæfi hans metin á um 7,2 miljarða Bandríkjadali.

Á vef Wikipedia, sem þó er rétt að taka með fyrirvara, kemur fram að Usmanov sé þekktur sem „harði maðurinn í Rússlandi“ og er þar væntanlega verið að vísa til hans sem viðskiptamanns. Hann sat í fangelsi í 6 ár á 9. áratugnum og að eigin sögn var hann pólitískur fangi kommúnista í Sovétríkjunum sálugu.

Enn liggur ekki fyrir hjá hvaða banka Usmanov hafði fengið lán.