Rússneski olígarkinn Mihail Prokhorov tapaði fyrir dómi 40 milljóna evra (6,9 milljarða króna) innágreiðslu vegna villu sem hann hugðist kaupa á frönsku Rivierunni. Dómstóll í Nice í Frakklandi úrskurðaði að hann ætti ekki rétt á að fá endurgreiddar 40 milljónir evra sem hann hafði greitt inná kaup vegna eignarinnar sem hann hafði lofað að kaupa á 390 milljónir evra (67 milljarða króna) árið 2008. Prokhorov hætti við kaupin á villunni eftir að hrun varð á málm- og steinefnamarkaði sem var grunnurinn að hans 6 milljarða evra fjármálaveldi.

Eigandinn má halda innágreiðslunni

Villan Belle Époque var upphaflega byggð fyrir Leopold II Belgíukonung að því er fram kemur í frétt The Times um málið. Úrskurðaði franski dómstóllinn að eigandinn, hin 71. árs gamla Lily Safran, fengi að halda innágreiðslunni og 1,5 milljónum evra málskostnað að auki sem henni voru dæmdar úr hendi Prokhorov. Lily er ekkja bankamannsins og milljarðamæringsins Edmond Safra sem myrtur var af hjúkrunarkonu sinni árið 1999. Hyggst ekkjan gefa peningana til góðgerðarmála. Prokhorov hefur ekki ákveðið hvort hann áfrýi dómnum.

Sagt móðgun við Rússa

Franski dómstóllinn opinberaði úrskurð sinn sama dag og Medvedev Rússlandsforseti heimsótti París til að fagna nýju tímabili í vináttutengslum Rússa og Frakka. Var þessi úrskurður annað kjaftshöggið sem Mihail Prokhorov fær frá franska réttarkerfinu. Í janúar 2007 var hann handtekinn og settur í fjögurra daga varðhald fyrir meintan innflutning á gleðikonum með flugi í partý sem hann hélt í annarri villu sem hann á í Courchevel í Ölpunum. Hann var þá látinn laus án ákæru en rússneskir fjölmiðlar litu á það atvik sem móðgun við Rússa að yfirlögðu ráði.