Tæplega 7.500 rússneskir ferðamenn hafa heimsótt Ísland það sem af er ári og hefur þeim fjölgað um 15% í samanburði við fyrstu tíu mánuðina í fyrra. Túristi greinir frá þessu.

Hins vegar hefur rússneskum ferðamönnum fækkað víða annars staðar og reiknar forstöðumaður ferðamálaráðs Rússlands með 30% samdrætti í utanferðum Rússa á þessu ári. Segir hann að viðskiptabönn, hækkandi bandaríkjadollari og óttinn við ebólu sé helstu ástæður þess að Rússa kjósi frekar að halda sig heima.

Veikt gengi rússneska gjaldmiðilsins gæti þó komið sér vel fyrir íslenska ferðamenn sem heimsækja Rússland. Hins vegar er ekki lengur boðið upp á beint flug héðan til Rússlands. Síðustu tvö sumur hefur Icelandair boðið upp á tvær ferðir í viku frá Keflavík til Sankti Pétursborgar en ekki verður framhald á því næsta sumar. Félagið mun hins vegar fjölga ferðum til Helsinki, en þaðan eru góðar samgöngur til Rússlands.