Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins mun nú vera að vinna að skýrslu sem mun hindra meðal annars rússneskum orkufyrirtækjum að ná festu í orkugeira Evrópusambandsins.

Í skýrslunni hefur framkvæmdarstjórnin sett fram nokkrar tillögur sem myndu takmarka aðgengi erlendra aðila að orkumarkaði sambandsins, sérstaklega í gas- og rafmagnsdreifikerfum. Ein þeirra er svokallað gagnkvæmnisákvæði sem myndi halda þjóðum á borð við Rússland og Sádi-Arabíu frá, þar sem miklar takmarkanir eru þar á fjárfestingum frá Evrópuþjóðum. Ef gagnkvæmnisákvæðið færi í gegn yrði það mikið reiðarslag fyrir orkufyrirtækið Gazprom, sem er í eigu rússneska ríkisins, og hefur uppi stórar áætlanir um að sækja á Evrópumarkað og á nú þegar eigur og eignarhluti þar.

Vægasta tillagan kveður á um að framkvæmdarstjórnin fengi heimild til að rannsaka gaumgæfilega alla mögulega kaupendur. En með sterkustu tillögunni yrði orkugeiri Evrópusambandsins yfirlýstur "strategískur iðnaður", en með því yrði langflestum löndum utan Evrópusambandssins óheimilt að fjárfesta í honum.

Þessar tillögur tengjast áætlun framkvæmdastjórnarinnar um að auka samkeppni á orkumarkaði Evrópusambandsins sem verður birt 19. september, en með áætluninni er markmiðið að slá á áhyggjur vegna afleiðinga einkavæðingar í orkugeiranum. Búist er við því að Evrópusambandið muni ítreka stuðning sinn við uppskiptingu eignarhalds (e. ownership unbundling), það er að segja að skilja að eignarhald á gas- og rafmagnsdreifikerfum frá orkuframleiðslufyrirtækjum. Aðildarríki hafa mótmælt þessari uppskiptingu og segja að ef dreifikerfi verði aðskilin framleiðslunni verði þau skotmörk yfirtaka frá erlendum aðilum.

Í öðru aðskildu skjali frá framkvæmdarstjórninni, sem dagblaðið FT Deutschland hefur séð, segir að með því að skipta orkufyrirtækjum upp á þennan máta geti orkumarkaðurinn orðið viðkvæmur fyrir því að aðrar þjóðir nái ráðandi stöðu, ekki bara hvað varðar framboð, heldur einnig dreifileiðir. Þá segir einnig í skjalinu að sérstaklega beri að gæta að fjárfestingum sem kunna að grundvallast af öðru en efnahagslegum hagsmunum.

Búist er við að hverslags hindrunum á erlendu eignarhaldi í orkugeiranum verði mætt með mótmælum. En framkvæmdarstjórnin hefur tekið sterka afstöðu gegn því að aðildarríki á borð við Spán og Frakkland geri orkugeira sína að "strategískum iðnaði," og halda þar með erlendum fjárfestum í skefjum. Það er þó talið líklegt að einhverjar takmarkanir verði settar á eignarhald í orkugeiranum í Evrópusambandinu.