Rússneskum stjórnvöldum hefur nú loks tekist, eftir níu misheppnaðar tilraunir, að selja rússnesk ríkisskuldabréf. Í frétt Bloomberg segir að skuldabréf að fjárhæð 10 milljarðar rúbla, andvirði um 31 milljarða króna, hafi verið seld með meðalávöxtunarkröfu upp á 9,37%. Er þetta fyrsta skuldabréfaútgáfa rússneska ríkisins frá því að gripið var til efnahagslegra refsiaðgerða gegn Rússlandi í júlí.

Rússnesk fyrirtæki hafa einnig notað tækifærið, sem í vopnahléinu í Úkraínu felst, til að gefa út skuldabréf í september, þar á meðal OAO Alfa Bank og OAO Gazprombank. Krafan á rússnesk tíu ára skuldabréf hefur lækkað um 50 punkta í mánuðinum og er nú um 9,30%.