„Ef ég væri stjórnandi hjá fyrirtæki með regluvörð þá myndi ég taka hann með,“ segir lögfræðingurinn Rut Gunnarsdóttir. Hún er annar tveggja leiðbeinenda á námskeiði Opna háskólans í Háskólanum í Reykjavík fyrir stjórnendur og eigendur fyrirtækja sem eru farnir að huga að skráningu þeirra á markað. Hinn leiðbeinandinn er Kristján Markús Bragason, MSc í fjármálum fyrirtækja og MSc í fjárfestingastjórnun. Hann fer fyrir hlutabréfagreiningu hjá Íslandsbanka.

Rut Gunnarsdóttir
Rut Gunnarsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Rut segir í samtali við vb.is að búist sé við að nokkuð mörg fyrirtæki hefji skráningarferli á næstu tveimur árum og því að mörgu að hyggja.

Rut, sem starfar við regluvörslu hjá Íslandsbanka, hefur haldið sambærileg námskeið fyrir starfsfólk innan veggja bankans og fyrir viðskiptavini. Námskeið sem þetta er hins vegar nýlunda hjá háskólunum.

Allt getur komið upp

Námskeiðið skiptist í tvo hluta. Annars vegar er um að ræða yfirferð yfir hlutabréfamarkaðinn og hugsanlega þróun hans á næstu tveimur árum. Hins vegar er það hliðin sem snýr að stjórnendum. Þar er m.a. fjallað um undirbúning þess ferlis að fara á markað út frá kröfum laga og reglna. Farið er yfir ferlið í grófum dráttum og ný og breytt hlutverk stjórnenda, regluvarða og starfsmanna útskýrð auk þess sem sérstaklega er farið yfir ábyrgð stjórnenda, upplýsingaskyldu og innherjareglur. Sá hluti námskeiðsins er á herðum Rutar.

„Ég mun fara yfir það sem stjórnendur þurfa að hafa í huga og leiða þá inn í það umhverfi sem þeir stíga inn í við skráningu,“ segir Rut en bætir við að hún hafi haldið námskeið um skráningu fyrirtækja á markað innan Íslandsbanka og fyrir viðskiptavini bankans. „Þetta er yfirgripsmeira fyrir stjórnendur félaga sem eru í þessum hugleiðingum til að sýna þeim allt sem getur komið upp.“

Námskeiðið verður haldið 21. febrúar næstkomandi og stendur frá klukkan 9 til 13.