Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, segist ekki hafa verið áhyggjufullur um að tapa formannslaginum þangað til allt í einu á sunnudagsmorgninum.

Rúturnar mættu á sunndeginum

„Þetta leit ágætlega út á laugardeginum og ég var ekkert sérstaklega áhyggjufullur,“ segir Sigmundur í fyrsta viðtali sínu eftir ósigurinn í formannskjöri Framsóknarflokksins, en viðtalið var í Ísland í Bítið í Bylgjunni í morgun.

„Svo allt í einu, þegar kominn var sunnudagur og klukkan orðin ellefu, þá komu rúturnar og út úr þeim streymdi fjöldi fólks sem ég hef hreinlega aldrei séð áður, í störfum mínum í flokknum. Og staðan breyttist mjög skyndilega.“

Enn kalt á milli þeirra

Á facebook í gærkvöldi sagði hann ástæðuna fyrir að hafa ekki rætt við fjölmiðla um niðurstöðuna vera að: „á flokksþinginu og í aðdraganda þess urðu atburðir sem ég hefði ekki trúað að gætu átt sér stað í Framsóknarflokknum.“

Segist hann þar enn um sinn ætla að bíða með að ræða málin í fjölmiðlum en í viðtalinu í morgun kom fram að þeir Sigurður Ingi Jóhannsson nýkjörinn formaður hafi ekki talað saman síðan formannskosningunum lauk. Sagði hann enn vera kalt á milli þeirra og að þó eftir því hafi verið leitað hafi Sigurður Ingi ekki viljað tala við sig í aðdraganda formannskosninganna.

Mörgum stuðningsmönnum ekki leyft að kjósa

Sigmundur vildi ekki taka það djúpt í árina að svindlað hafi verið í kosningunum þegar hann var spurður að því en hann sagði að margt hefði átt að vera öðruvísi en það hefði átt að vera.

„Það eru mjög margir búnir að hafa samband við mig og látið mig vita að þeir hafi ætlað að styðja mig í kosningunum, og þeim leyft að innrita sig á flokksþingið, en svo ekki leyft að kjósa,“ sagði Sigmundur í viðtalinu og sagðist hann bæði þar og á facebook ætla nú að einbeita sér að kosningabaráttunni í Norðausturkjördæmi.

Eftirlætur öðrum landsmálin

„Gagnvart þeim hef ég tekið að mér skyldur sem ég hef ekki hugsað mér að hverfa frá. Á næstu misserum mun ég þvert á móti fyrst og fremst einbeita mér að því að sinna kjördæminu og málefnum þess.“

Í viðtalinu sló hann einnig ákveðinn sáttartón og sagðist ætla að eftirláta öðrum: „stóru myndina, landsmálamyndina.“