Tyrfingur Guðmundsson
Tyrfingur Guðmundsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Rútufyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson, eða gts ehf., tapaði 32,1 milljón króna á síðasta ári, sem er nokkur viðsnúningur frá árinu 2017 þegar hagnaður þess nam rétt rúmlega 6,7 milljónum króna.

Tekjur félagsins drógust saman um 17,6% milli ára, úr 463,4 milljónum í 381,9 milljónir króna, á sama tíma og rekstrargjöldin drógust saman um 9,7%, úr 453,6 milljónum í 409,5 milljónir króna.

Skuldir og skuldbindingar félagsins drógust eilítið saman, eða um tæplega 1,4 milljón og námu við árslok tæpum 214,2 milljónum króna, meðan eigið fé félagsins minnkaði um þriðjung, úr 131,1 milljón í 87,5 milljónir króna. Samanlagt drógust því eignir félagsins saman um tæplega 13%, úr 346,6 milljónum króna í 301,7 milljónir króna á árinu 2018.

Veltufé frá rekstri fór úr því að vera jákvætt um 29,7 milljónir árið 2017 í að verða neikvætt um 17,8 milljónir á árinu 2018. Handbært fé frá rekstri snerist úr því að vera jákvætt um 11,4 milljónir í neikvætt um tæplega 14 milljónir króna.

Fjárfestingarhreyfingarnar voru hins vegar jákvæðar um 51,9 milljónir á árinu 2018, eftir að hafa verið neikvæðar um 132,8 milljónir króna árið 2017, en fjármögnunarhreyfingarnar fóru á sama tíma úr því að vera jákvæðar um 121,7 milljónir í að vera neikvæðar um 37,8 milljónir króna.

Handbært fé félagsins jókst því um 36,4% á árinu, úr 347,6 þúsund krónum í byrjun árs, í 474 þúsund krónur í lok þess. Tyrfingur Guðmundsson er framkvæmdastjóri félagsins sem er að 11 til 15% hluta í eigu hans og hvers af systkinum hans þremur, auk þess sem móðir hans á um fjórðungshlut og Guðmundur Tyrfingsson á rúm 17%.